AF HVERJU AÐ GERA EIGNAMÖRK?
Þegar enginn ágreiningur er um eignamörk!
Til hamingju! Það er besta staðan ef enginn ágreiningur er um eignarmörk við nágranna. En þetta getur verið fljótt að breytast ef nágranni selur og nýr nágranni hefur aðrar hugmyndir. Best er því að klára frágang eignamarka og þinglýsa þegar enginn ágreiningur er til staðar.
Ný lög krefjast þess
Ný lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2020 setja hömlur á jarðasölu. Ef jarðareigandi er að bæta við sig jörð þá má samanlagt jarðnæði hans ekki fara yfir 1.500 hektara nema með leyfi ráðherra. Því er mikilvægt að þekkja eignamörk og stærðir.
Auðveldar viðskipti
Ágreiningur og óvissa um eignamörk jarða og lóða tefja viðskipti. Dæmi eru um margra mánaða tafir á sölu og greiðslu jarða þar sem eignamörk eru ófrágengin. Því er best að ljúka þeim strax til að þau standi ekki í vegi fyrir viðskiptum þegar þau kunna að verða.
Er þetta ekki of flókið?
Það kann að virðast svo því fæstir standa í þessu reglulega. Hafa þarf samband við marga aðila, stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir og nágranna og það getur reynst flókið. Við höfum einfaldað þetta ferli með því að tryggja samvinnu opinberra aðila og auðveldum þér að klára málið hjá okkur og með okkur.
Er þetta ekki of dýrt?
Ef eignamörk eru unnin á rangan hátt getur það verið dýrt. Það er okkar markmið að gera þetta verkefni sem hagkvæmast fyrir landeigendur með góðum leiðbeiningum, bestu ráðgjöfinni og nýjum tæknilausnum. Saman skilar þetta hámarks afköstum fyrir lágmarks kostnað.
Amma og afi vita þetta
Það er gott ef landeigendur hafa þekkingu á eignamörkum, en það getur breyst. Eldri landeigendur sem þekkja hólinn, fjallið, nesið og önnur örnefni sem eru í landamerkjalýsingum geta fallið frá og þá verða eignamörk óljós. Því er best að klára eignamörk á meðan vitneskjan er fyrir hendi.
Borgar þú fasteignaskatt fyrir nágrannana?
Já! Ef landeignin þín er ranglega skráð hjá Þjóðskrá getur verið að þú sért að greiða skatta og gjöld af því sem nágranni þinn á. Rétt skal vera rétt.
Áttu ekki örugglega sumarhúsið þitt?
Oft hefur fólk fengið að byggja sumarhús eða önnur mannvirki á hluta jarða í eigu annarra. Ef ekki hefur verið rétt gengið frá skráningu fasteigna og eignamörkum gæti réttur þinn verið minni en þú heldur, jafnvel enginn.
Áttu meira en þú veist?
Stundum kemur í ljós að fólk á tilkall til stærri hluta jarðar en það vissi og mögulega nýtti. Ef jarðhiti finnst eða tækifæri skapast til vindorkuvirkjana, vatnsorku eða landbúnaðar. Þá viltu vita hvað þú átt og mátt.
Eignamörk auka verðmæti fasteigna
Fasteign sem er með fullkomlega frágengin og með þinglýst eignamörk er verðmætari en eign með óljós eignamörk. Það er mikið öryggi fyrir væntanlegan kaupanda að vita hvernig eignin er afmörkuð og að ekki séu deilur um eignamörk.
Við viljum ekki valda illdeilum
Það gerist að sumt fólk verði „landsárt“. Hver fermetri skiptir máli óháð öllu öðru og það hafa jafnvel orðið erjur í fortíð út af litlum ástæðum. Sú þjónusta sem Eignamörk veitir beinir fólki í farveg sem er málefnalegur og gagnsær. Landeigendur fylgja réttum skrefum og komast sameiginlega að málefnalegri niðurstöðu.
Er fjaran farin?
Á Íslandi er land síbreytilegt. Fjörur fara og koma. Árfarvegir færast. Eldgos stækkar landið og breytir því. Hvernig breytist landareignin mín þegar slíkt gerist? Hvar eru landamerkin sem áður voru. Mikilvægt er að skrá eignamörk sem eru til staðar og þinglýsa þannig að þau séu þekkt til frambúðar.
Stjórnarskráin ver eignarétt minn, en…
Í 72. grein stjórnarskrárinnar segir „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.“ Því er mikilvægt að þín eign sé rétt afmörkuð þannig að þú getir varið hana.
Ég þori ekki að skrifa undir
Oft þorir fólk ekki að skrifa undir afmarkanir landeigna af ótta við að vera að tapa einhverju. Með því að fara í gegnum staðlaðan feril með sérfræðingum á þessu sviði er hægt að lágmarka eða útiloka að verið sé að samþykkja röng eignamörk. Ef nýjar heimildir koma í ljós síðar sem leiða annað fram má lagfæra eignamörkin skv. þeim ef rök eru fyrir því.
Fyrir framtíðina
Landeignir verða verðmætari með hverju ári. Það er því mikilvægt fyrir þjóðina að þær séu vel afmarkaðar þannig að landnýting verði eins og best verði á kosið fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.